Aðbúnaður

Þegar Kleppsspítali opnaði árið 1907, var eitt af markmiðunum að búa hinum veiku mannsæmandi dvalarstað. Stóra byggingin á Kleppi var reist 1929 en síðan hafa íbúðarhús, endurhæfing og skrifstofubyggingar bæst við. Geðdeildarbyggingin við Landspítalann Hringbraut var opnuð árið 1979. Það húsnæði sem nú hýsir geðsvið Landspítalann eru því flest orðið áratugagamalt. Það sem eitt sinn var nýtt, verður gamalt og þarf að endurnýja en ljóst er miðað við fjárhag ríkisins að svo mun ekki verða í náinni framtíð.

Starfsemi geðsviðs Landspítalans fer fram í fjölmörgum byggingum á höfuðborgarsvæðinu, auk réttargeðdeildarinnar að Sogni. Að þjónustunni kemur úrvalsfólk. Það eitt, að starfsfólkið skuli tugum saman ætla að að selja Brospinna í frítíma sínum, til þess að bæta aðbúnaðinn á geðdeildunum, sýnir hversu annt þeim er um velsæld og vellíðan skjólstæðinga sinna. Það veit sem er að það skiptir máli að skapa heimilislegt og hlýlegt umhverfi til þess að auka lífsgæði notenda geðdeilda á meðan þeir liggja inni. Bæði innréttingar og húsmunir á flestum deildum eru komnir til ára sinna og margir upprunalegir og máðir eftir því, auk þess sem umhverfið er fremur stofnanalegt. Margir notendur hafa kvartað undan lélegum aðbúnaði og sumir jafnvel opinberlega.

Árið 2010 hófst verkefnið, var smátt í sniðum en samt seldust Brospinnar fyrir 700.000 kr. Keyptir voru sófar og flatskjár á nokkrar deildir, notendum til mikillar ánægju, fyrir féð sem safnaðist. Árið 2011 seldust brospinnar fyrir tæplega 4.000.000 kr. Nú vilja Brospinnar gera betur. Þörfin er svo mikil. Við ætlum að snúa andlitinu á móti sólu og treysta á almenning. Við viljum að skjólstæðingum okkar líði vel á geðdeildunum, að þeir geti notið umhverfisins og að þeir geti haft meira við að vera. Því biðlum við til ykkar. Geðröskun snertir eina af hverja þremur fjölskyldum. Margir þurfa á aðstoð geðdeilda að halda til þess að komast yfir erfiðasta hjallann í veikindum sínum, hvort sem það er einu sinni eða oftar. Kauptu Brospinna til styrktar góðu málefni, til styrktar þeim sem oftast hafa ekki rödd. Hjálpaðu okkur til að búa betur að þeim. Við þökkum þér fyrir stuðninginn.

Brospinnar – áhugahópur um bættan aðbúnað.