Um geðsviðið og geðdeildirnar

Geðsviðið er stórt svið innan Landspítalans og sinnir meginhluta geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi, jafnt fyrir bráðveikt fólk, þá sem eru með sérhæfð vandamál og endurhæfingu fólks með geðraskanir. Í vaxandi mæli er unnið í samvinnu við heilsugæslu og aðra velferðarþjónustu utan sjúkrahúsa, þar sem þess er kostur.

Sjúklingurinn og öryggi hans eru ætíð í fyrirrúmi. Markmiðið með starfssemi geðsviðs er að eftir meðferð verði fólk hæfara til að takast á við daglegt líf. Áhersla er lögð á heildræna meðferð og meðferðaráætlanir þar sem forsendan er gagnkvæm upplýsingamiðlun á milli sjúklings, fjölskyldu, annarra aðstandenda og heilbrigðisstarfsfólks.

Á geðsviði er lögð rík áhersla að réttindi sjúklinga séu virt í hvívetna. Til þess að tryggja góða þjónustu og árangur er stöðugt fylgst með gæðum starfsins og unnið að gæðatengdum verkefnum. Bæði fulltrúi notenda starfar á geðsviði og eins gæðaráð sem skilgreinir gæða- og árangursmælikvarða fyrir sviðið, hefur yfirsýn yfir gæðastarf og leggur fram tillögur að breytingum.

Á geðsviði starfa fjölmargar starfsstéttir: Læknar, hjúkrunarfræðingar, sálfræðingar, félagsráðgjafar, sjúkraliðar, ráðgjafar og stuðningsfulltrúar, læknaritarar, listmeðferðarfræðingar, heilbrigðisritarar, hjúkrunarritarar og áfengis- og vímuefnaráðgjafar.

Geðdeildir og þjónusta
Legudeildir geðsviðs eru níu talsins og veita mismunandi þjónustu eins og sérfræðiþjónustu í bráða- og almennum geðlækningum, fíknigeðlækningum, geðrænni endurhæfingu og réttargeðlækningum. Samvinna er við önnur svið um iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun og ýmsa þjónustu presta, næringaráðgjafa og fleiri.

Hér eru talin upp nokkur af þeim úrræðum og þeirri þjónustu sem geðsvið Landspítalans veitir:

Fyrsta greining fer fram hjá ferli- og bráðaþjónustu geðsviðs og er fólki vísað þaðan til frekari meðferðar ef þörf krefur eða aftur til heilsugæslu. Stundum getur fólk þurft á innlögn að halda.

Á móttökugeðdeildum er tekið á móti fólki sem þarfnast bráðainnlagnar. Meðferðin er fjölþætt og heildræn, sniðin að þörfum sjúklinga eftir því sem unnt er á hverjum tíma.

Á fíknigeðdeild Landspítalans er rekin sérhæfð þjónusta fyrir einstaklinga sem bæði eru með geðraskanir og nota vímuefni. Við deildina starfar breiður hópur fagfólks á þremur einingum sem vinna náið saman.

Í endurhæfingu er lögð áhersla á aukin lífsgæði og hvatt er til ábyrgðar á eigin lífstíl, m.a. með fræðslu og stuðningi til að auka virkni og ábyrgð til fólks til að ná markmiðum sínum. Þátttaka í samfélaginu, valfrelsi og leið til að þroskast við breyttar aðstæður eru mikilvæg atriði í endurhæfingunni.

Heimildir: http://www.landspitali.is og Geðsvið upplýsingarit