Um okkur

Öðru hvoru kemur það fyrir í lífinu að fólk er tilbúið til þess að gera meira en það raunverulega þarf. Þetta á við Brospinnafélagið – Áhugahóp um bættan aðbúnað á geðdeildum, sem samanstendur af starfsmönnum geðdeilda Landspítalans. Á sama tíma og niðurskurður hefur haft veruleg áhrif á starf þeirra og starfsumhverfi þeirra auk þess sem geðdeildirnar hafa verið í umræðunni í fjölmiðlum fyrir slæman aðbúnað, ákvað hópur starfsmanna að leggja töluvert á sig í sjálfboðavinnu til þess að bæta aðbúnaðinn.

Forsagan er ótrúleg sem og framvindan. Árið 2009 var starfsmaður á geðdeild að reyna að létta lund mjög veiks sjúklings. Starfsmaðurinn teiknaði, klippti og límdi broskarl á tunguspaða sem hann notaði sem pinna og skildi eftir á náttborði sjúklingsins. Þannig kviknaði hugmyndin að Brospinnanum. Starfsfólki geðdeilda Landspítalans er ljóst að á næstu árum verður lítið fé aflögu úr rekstri ríkisins til þess að bæta aðbúnaðinn sem mikil nauðsyn er á. Var því stofnað félagið: Brospinnar –áhugahópur um bættan aðbúnað á geðdeildum Landspítalans. Árið 2010, voru Brospinnarnir seldir í fyrsta sinn á götum borgarinnar og voru viðtökurnar ótrúlegar.

Verndari söfnunarinnar:

  • 2011 Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands.
  • 2012 Einar Már Guðmundsson, rithöfundur

Í stýrihópnum 2012 voru: Eyrún Thorstensen, hjúkrunarfræðingur og deildarstjóri á 32C, Páll Kristrúnar Magnússon, starfsmaður á 32C, Heimir Guðmundsson, starfsmaður í iðjuþjálfun, Björg Arndal, Sylviane Lecoultre, iðjuþjálfi og Unnur H. Jóhannsdóttir, M.A í blaða- og fréttamennsku.